22 september 2024

Ölgerðin byggir á Hólmsheiði

Ölgerðin hefur skrifað undir viljayfirlýsingu við Reykjavíkurborg um að reisa vöru- og dreifingarmiðstöð á Hólmsheiði, auk þess að reisa vatnsátöppunarverksmiðju fyrir Iceland Spring. Nýja vöruhúsið og dreifingarmiðstöðin mun auka mjög skilvirkni í rekstri fyrirtækisins, enda hefur vöxtur fyrirtækisins um nokkurt skeið kallað á frekari uppbyggingu hvað þetta varðar. Þá mun nýtt húsnæði gera okkur kleift að setja upp nýjar framleiðslulínur í núverandi vöruhúsi.
 
Þá mun Ölgerðin jafnframt reisa vatnsátöppunarverksmiðju fyrir Iceland Spring á Hólmsheiði, en úflutningur vatns til fjölmargra landa hefur vaxið jafnt og þétt undanfarin ár.
 
„Við þurfum ekki að sækja vatnið yfir lækinn, í bókstaflegri merkingu, því vatnslind Iceland Spring er einmitt hér á þessu svæði og því stutt að sækja það áður en það heldur í langferðir á erlenda markaði.  Hróður íslenska vatnsins berst æ víðar undir merkjum Iceland Spring og sala þess eykst jafnt og þétt í sífellt fleiri löndum, þökk sé m.a. gæðum vatnsins hér“,  segir Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar.
 
Deiliskipulag fyrir svæðið verður auglýst í október og standa vonir til að hægt verði að hefja framkvæmdir fljótlega eftir að því ferli lýkur.

 

 


 

Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar og Einar Þorsteinsson, borgarstjóri, handsala samninginn um uppbyggingu á Hólmsheiði.

 

VR Fyrirmyndarfyrirtæki Jafnlaunavottun BSI Vottanir LEED Vottanir