16 desember 2024
Ölgerðin og Skógræktarfélag Reykjavíkur semja um útivistarskóg og kolefniseiningar
Ölgerðin hefur skrifað undir samning við Skógræktarfélag Reykjavíkur um skógrækt á hluta af jörð Skógræktarfélagsins í Lundarreykjadal. 400.000 trjáplöntur verða gróðursettar á næstu fimm árum. Samkvæmt samningum eignast Ölgerðin megnið af þeim kolefniseiningum sem til verða. Skógræktarfélag Reykjavíkur eignast skóginn sem verður útivistarskógur, opinn almenningi.
Jörðin, Lundur III, er í Lundarreykjadal í Borgarfirði og um 610 hektarar. Til stendur að rækta skóg á mestallri jörðinni. Samningurinn við Ölgerðina nær til 170 hektara. Reiknað er með að 2.500 trjáplöntur verði gróðursettar á um 160 hekturum. Alls 400.000 plöntur á næstu fimm árum. Nú er næsta skref að vinna fornleifaskráningu á svæðinu. Eftir það verður sótt um framkvæmdaleyfi og svo þarf að girða svæðið.
Í fyllingu tímans vex upp fallegur útivistarskógur þarna í Lundarreykjadal, sem einnig verður nýttur að einhverju leyti, á sjálfbæran hátt. Með samstarfi við Ölgerðina, er hægt að hefja uppgræðslu og skógrækt í Lundarreykjadal af krafti.
Gróðursetningn á svæðinu hefst líklega 2026, þó mögulega verði byrjað strax næsta haust. Gert ráð fyrir að mest verði gróðursett af stafafuru en einnig greni, ösp og birki og lerki. Mikið af landsvæðinu eru hlíðar með rýran jarðveg en stafafura stendur sig alla jafna vel í slíkum aðstæðum.
Á meðfylgjandi mynd eru:
Andri Þór Guðmundsson, forstjóri Ölgerðarinnar, Málfríður Guðný Kolbeinsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og starfsumhverfis hjá Ölgerðinni, Ingibjörg Karlsdóttir, leiðtogi sjálfbærni og umbóta hjá Ölgerðinni, Auður Kjartansdóttir, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur og Jóhannes Benediktsson, formaður Skógræktarfélags Reykjavíkur.